Tilgangurinn með vefsíðunni er að færa sérfræðiþekkingu á efnivið til myndlistar nær hinum almenna notanda, börnum, foreldrum og kennurum sem ekki hafa sérfræðiþekkingu á efniviðnum.

Í upphafi er vert að benda á hversu mikilvægt það er að efla sköpunarkraft barnanna og ekki að stýra því sem þau taka sér fyrir hendur í myndsköpun. Þau eru fullfær um það sjálf ef þau fá tækifæri til þess og leiðsögn í að nota verkfærin eða efniviðinn. Annað mál er að vekja áhuga, spyrja opinna spurninga sem hvetja þau til að sjá umhverfi sitt með opnum huga og gagnrýnum augum. Hér er átt við umhverfi í stærra samhengi en hið náttúrulega umhverfi sem umlykur okkur. Í umhverfi okkar eru einnig mannfólk, dýr, hlutir, byggingar, tækni, margmiðlun, orð, hljóð, tilfinningar, hreyfing og svo mæti lengi telja.

Sir Ken Robinsson vitnaði í Picasso sem sagði að öll börn væru fæddir listamenn – vandamálið væri að viðhalda listamanninum í þeim.
Ég hvet ykkur eindregið til að horfa á þennan fyrirlestur ásamt fleirum sem Sir Ken Robinson hefur haldið.

Skipulag vefsíðunnar
Vefsíðan hefur marga flipa sem hver vísar til ákveðinnar tegundar af myndlistaefnivið eða verkfæra til myndlistaiðkunar. Hverri tegund fylgir texti til útskýringar og er honum háttað þannig að orðalag fyrstu setninga er einfalt fyrir yngstu lesendur vefsíðunnar en síðan þyngist það smám saman eftir því sem þarf til að útskýra efnið nánar. Í mörgum tilfellum er stiklað á stóru þar sem umfang og tegundir eru margar og ekki hægt að gera hverri og einni ítarleg skil. Í textanum er einnig vísað á annað efni, vefsíður eða myndbönd þar sem hægt er að sækja frekari fróðleik.

Um leiðandi efni
Efni vefsíðunnar veitir ekki leiðbeinandi upplýsingar um það hvernig eigi að vinna myndlistaverk og komum við þá að þeirri grundvallar hugmynd sem vefsíðan byggir á. Vefsíðan veitir aðeins upplýsingar um efniviðinn sjálfan og eiginleika hans svo að hugmyndavinna og sköpun viðtakandans sé algjörlega hans.
Af ásettu ráði voru leiðarvísar á annað fræðsluefni (linkar) valdir með það í huga að þeir væru sem minnst leiðandi í verkefnavali eða myndsköpun.

Ég er meðvituð um hversu einstrengingsleg skoðun mín er gagnvart fyrirfram mótuðum verkefnum í myndlist og á álíka sviðum. Það er vandmeðfarið að hafa áhrif á sköpunaferli barna, þau eru mis kröftug, áhugasöm og sjálfstæð eða hégómafull. Fyrir sum börn getur það virkað sem kveikja að nýrri hugmynd eða aðferð að sjá eða prófa eins og einhver annar hefur gert í myndlist – og einnig getur það verið mikilvægur lærdómur á efniviðinn eða verkfærin. En slíkt ferli verður aldrei neitt annað en túlkun á því sem fyrir var. Sköpun í sinni eiginlegu mynd verður að koma frá rótum einstaklingsins sjálfs. Fái barn leiðandi verkefni í hendurnar þá má það ekki hafa þann tilgang að halda því uppteknu og viðhalda aga í hópnum – tilgangurinn á að vera að kynna fyrir því aðferð, verktækni og að víkka sjóndeildarhringinn svo það sjálft sé reynslunni ríkari og geti beitt henni í næstu verkefni. Það er í lagi að ræða það við börn hvaða tilgang kennsla og nám hefur. Svo þau geti notað þekkingu og reynslu til eigin verka í nútíð og framtíð.

Margar tegundir
Í fyrstu taldi ég það vera nokkuð einfalt verk að setja saman hnitmiðaðar upplýsingar um myndlistaefnivið og birta þær á vefsíðu. Svo varð ekki raunin og þá á ég við að í dag keppast fyrirtæki við að þróa nýjar og endurbættar tegundir af hverri tegund og því er úrvalið orðið meira en mig grunaði.
Sem dæmi þekkjum við flest tréliti og hvernig þeir eru. Almennt lítum við á tréliti sem lit sem er að lögun og umgjörð eins og blýantur nema hvað inni í honum er lituð stöng sem gefur frá sér lit þegar við beitum honum. Í dag eru til mjög margar tegundir af trélitum og hver þeirra hefur sína sérstöku eiginleika og koma nýjar og endurbættar tegundir á markað reglulega.
Þau fyrirtæki sem sérhæfa sig í gerð myndlistaefniviðs eða verkfæra til myndlistaiðkunar hafa sín sérkenni í framleiðslu á hverri tegund. Framleiðendur eru líka í samkeppni hvor við annan því allir vilja þeir selja sem mest. Úrvalið er því orðið mjög mikið og flóran og samkeppnin er orðin það mikil að það virðist yfirþyrmandi að velja það sem hentar börnunum okkar best hverju sinni.

 
Back to top