Sú hugmyndafræði sem liggur að baki vefsíðunni er sótt einkum í þrjá fræðimenn en það eru John Dewey, Loris Malaguzzi og Vygotsky.

Dewey
Ég hef oft í námi mínu leitað í smiðju John Dewey og hugsanlega má segja að hann hafi haft meiri áhrif á mig en mig grunar. Bók hans Reynsla og menntun, hef ég lesið margoft og í sérhvert sinn fundið það sem ég leitaði að, kannski er það ekki lengur tilviljun.
Í fyrsta kafla þessarar bókar, í þýðingu Gunnars Ragnarssonar, ræðir Dewey um togstreitu milli hefðbundins og framsækins skólastarfs. Í stuttu máli sé hefðbundið skólastarf á þann veg að það sé mótað af fyrri kynslóðum sem afhendi þeirri næstu samansafn af hefðum, aga og námsefni sem áður hefur verið notað – en framsækið skólastarf hafni þeirri leið alfarið. Dewey dregur í efa að þessar öfgar séu til gagns en er þó sammála þeirri hugmynd að fortíðin viti ekki mikið um framtíðina og veltir þar af leiðandi fyrir sér með hvaða hætti áður mótað kennsluefni ætti að hafa áhrif á nemendur. Með þessu er hann þó ekki að hafna þeirri þekkingu sem hefur áunnist heldur fremur kennsluaðferðunum og leggur þar grunn að þeirri kenningu að nám eigi að fara fram í gegnum samskipti, athöfn og reynslu og að það leiði af sér djúpstæðari skilning og lærdóm .
Nám í gegnum reynslu byggist ekki síst á þeirri forsendu að nemandi fái að handfjatla raunverulega hluti, læra hvernig þeir virka og síðan í framhaldinu að nota þá eða reynsluna af þeim við næstu námstækifæri. Dewey lagði einnig áherslu á að reynsla eins sé nám annars í gegnum samskipti þeirra og á hann þá við að kennarinn veiti barninu bæði tækifæri til að læra af athöfn og reynslu en einnig af þeirri reynslu og þekkingu sem kennarinn býr yfir og getur veitt nemandanum í gegnum samræður og samskipti um viðfangsefnið. Dewey sagði einnig að umhverfið væri þriðji kennarinn og án þess væru vart tækifæri til að upplifa, handfjatla, prófa sig áfram . Hér vil ég þó koma á framfæri að hér er eitt afmarkað sjónarhorn dregið fram úr kenningum Dewey og vert er að benda á að hann skrifaði mörg rit um menntastefnu sína og efni hennar í heild sinni kemur ekki fram hér með skýrum hætti
(Dewey, 1938/2000).

Malaguzzi
Louris Malaguzzi hafði það viðhorf að barnið hafi hundrað mál og á hann við hæfileika barnsins til að nota skilningarvit sín til að lesa í umhverfi sitt, uppgötva, að skilja og afla sér þannig þekkingar á margfalt dýpri og margslungnari hátt en áður hafði verið haldið (Börn hafa hundrað mál, 1988). Malaguzzi sótti hugmyndir sínar um reynslu og nám barna í smiðju Dewey en hann sótti einnig í hugmyndir Montessori sem lagði ríka áherslu á að börn fengju öðru fremur að læra af og fá reynslu af raunverulegum hlutum eins og raunverulegum húsbúnaði, verkfærum og raunverulegum aðstæðum í þeim tilgangi að þá færi ígrundað nám fram heldur en að sitja við skólaborð og læra af bókum. Þess vegna lagði Malaguzzi áherslu á að börn fengju að handfjatla og skoða hluti frá öllum hliðum. Dæmi um það er þegar ballerínubúningur er til skoðunar þá er farið alla leið í að læra. Það er gert með því að fara í ballettinn sjálfann (leikhúsið) og upplifa sýningu, fá að fara baksviðs, farið til ballerínubúnings-saumakonunnar, ljósmyndir teknar, efnið haldfjatlað og skoðað frá öllum mögulegum hliðum með stækkunargleri, búningurinn prófaður og fleira sem tilefni gefa til(Rinaldi, 2006).

Vygotsky
Vygotsky sem einna þekktastur er fyrir kenningar sínar um svæði mögulegs þroska en hann taldi að börn lærðu ekki síst í samfélagi við aðra og einnig með verkfærum og efnivið sem umhverfið byði uppá (Bodrova og Leong, 2007).

Ég sjálf dreg þá skoðun af kenningum Dewey, Malaguzzi, Montessori (og fleirum) að hefðbundið námsefni sem er bundið í texta og útskýringar á því hvernig eigi að teikna, mála eða móta eitt og annað í myndlistakennslu sé í raun heftandi fyrir skapandi tilraunir barnanna því það sé einungis svipmynd af tíma og rúmi eða hugljómun sem einn einstaklingur eða hópur (höfundur/höfundar) höfðu á þeim tíma sem efnið var skrifað.
Með fyrirfram mótuðu námsefni eða kennsluverkefnum sé hættan sú að það myndi neikvæðan ramma sem börnin vita ekki hvort þau eigi að stíga upp úr eða ekki. Þar vil ég þó leggja áherslu á að aðferðir kennara við að leggja fram námsefni geta verið mjög einstaklingsbundnar og því má segja að þetta sé allt undir kennaranum sjálfum komið.
Ég vil þó öðru fremur leggja áherslu á þá skoðun mína að námsefni í listgreinum eigi að vera svo opið í báða enda að kennarinn hafi ekkert annað til að treysta á en að leyfa nemendum að vera þeir sjálfir, beita eigin hugsun og reyna á ímyndunaraflið sem er einn af styrkleikum barnanna. Því sé mikilvægt að kennarinn kunni á leiðirnar að reynslunni, sjálf verkfærin, hvort sem það er saumavél, borvél, logsuðutæki eða teikniáhöld, svo fáein dæmi séu tekin. Kunni hann ekki á þau á hann að sækja þekkinguna til annarra sérfræðinga sem geta svarað spurningum barnanna og kennt þeim þá verktækni og kunnáttu á efniviðinn sem þau þurfa í sínum tilraunum og námi.

Heimildir:
Dewey, J. (1938/2000). Reynsla og menntun (Gunnar Ragnarsson þýddi). Reykjavík: Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands. (Upphaflega gefið út 1938).
Bodrova, E. og Leong, D. J. (2007). Tools of the mind. The Vygotskian approach to early childhood education. New Jersey: Pearson.
Rinaldi, C. (2006). In dialogue with Reggio Emilia: Listening, researching and learning. London:
Routledge.

 
Back to top