Það er spurning um hugarfar hvort við lítum á það sem einfalt eða flókið mál að kaupa efnivið og verkfæri til myndsköpunar. Fyrir þá sem þekkja lítið til myndlistavara getur úrvalið virkað mikið en listamenn kvartað stundum undan fátæklegu úrvali, þess vegna tengist þetta reynslu og þekkingu á efniviðinum. Fyrir þann sem ekki þekkir til er erfitt að meta gæði eða eiginleika litanna eða verkfæranna sem eru innilokuð í kössum, pökkum eða plasti. Síðan er pappír til í mörgum gerðum og stærðum og er frekar dýr ef út í það er farið.

Sérvöruverslanir með myndlistaefnivið eru ekki á hverju strái á Íslandi – þó þær séu vissulega til staðar og vel að merkja þá átt þú að geta fengið góðan og hlutlausan fróðleik hjá þeim starfsmanni sem er sérhæfður í myndlistavörum. Myndlistavörur er einnig hægt að finna í mörgum almennum verslunum og þar er heldur erfiðara að segja til um gæði, í sumum tilfellum er hægt að detta niður á mjög góðar vörur en oft mjög lélegar.

Annað er að það færist mjög í vöxt að versla vörur utan landsteinanna og fá þær sendar heim. Þú getur athugað þann möguleika.

Við getum valið að kaupa ódýrar vörur á meðan börnin okkar eru að gera tilraunir og læra á það hvernig efniviðurinn virkar. Vissulega getur ódýr myndlistaefniviður verið góður og þá á ég við að hann sé litsterkur og hafi þokkalega góða endingu. En því miður er það þannig að í flestum tilvikum þegar keyptar eru ódýrar vörur þá er lítið litarefni í þeim og því verður teikningin eða málingin dauf, þurr, blýantar og pennar harðir og þá er hætta á að ánægjan að loknu verki verði lítil og ennþá minni áhugi til að taka upp þráðinn seinna. Þarmeð má segja að sparnaðurinn sé farinn ef efniviðurinn er ekki notaður. Við getum líkt þessu saman við að kaupa ódýran bol sem hleypur, er orðinn snúinn og eftir fáeina þvotta í viðbót er byrjaður að rakna upp. Það er gott og gilt að spara og fara vel með peningana en það má ekki heldur koma okkur í koll með því að sitja uppi með afar lélega vöru.

Góðir litir
Það er því betra að kaupa góða liti þó þeir kosti meira. Dýrari tegund af lit þýðir að í þeim er meira og betra pigment sem þýðir að sterkari, dýpri og fallegri litur situr eftir. Af því þeir kosta meira þá er ástæða til að fara vel með þá án þess að það þurfi að bitna á því að þeir séu notaðir – þá má heldur ekki spara á þann veginn – því þá erum við fallin í sömu gryfjuna að hlutirnir séu ekki notaðir – auk þess að setja einhverjar hömlur á sköpunarmátt barnanna.

Ending
Teikni barn mynd sem við viljum eiga þá er heppilegra að litirnir séu betri en ekki. Í því sambandi má benda á að tússlitir sem hægt er að þvo út fötum, hafi þannig óvart gerst, merktir með ,,washable” eru oft búnir til úr fátækara úrvali af litarefnum auk þess sem þeir endast fremur illa og dofna með árunum. Hér þurfum við vissulega að velja og hafna. Við þurfum líka að velta fyrir okkur hversu lengi við viljum að myndin endist. Viljum við ekki að meistaraverk myndlistamanna endist um aldir ? við hljótum að vilja að myndlistaverk barnanna okkar endist nokkur ár eða lengur.

Ókeypis
En það er mikilvægt að benda á það að oft þarf ekki að kosta miklu til og í sumum tilfellum þarftu ekki að kaupa neitt og hægt er að skapa áhugaverða myndlist með efnivið sem er í umhverfinu. Sem dæmi getum við búið sjálf til kol með auðveldum hætti (það er útskýrt í efnisflokknum um kol). Með kolum er hægt að teikna og mála á margs konar undirlag, steina, plötur, spýtur, pappaspjöld eða það sem þér dettur í hug. Finnir þú rauðan stein úti í náttúrunni þá getur þú með vatni nuddað honum við annan stein þangað til hann byrjar að gefa frá sér litarefni sem hægt er þá að mála með. Blóm fífilsins gefur frá sér gulan lit þó að ekki komi mikið úr hverju þeirra. Svona mætti telja áfram en hins vegar verður vart hjá því komist að kaupa eitthvað viljir þú víkka út verksviðið.

 
Back to top