Kol eru mjög skemmtilegt til að teikna og lita með. Þau eru svört en gefa frá sér gráa og svarta litatóna allt eftir því hversu laust eða fast þú teiknar. Kol eru mjög viðkvæm og brotna eða molna auðveldlega og þess vegna verður þú að fara mjúkum höndum um þau.

Ef þú skiptir um skoðun og vilt teikna eitthvað annað en þú varst að teikna þá getur þú tekið tusku eða klósettpappír og þurrkað teikninguna þína í burtu. Pappírinn verður reyndar svolítið grár á eftir en það skiptir ekki öllu máli. Margir sem eru að æfa sig í að teikna eitthvað nota kol. Þá teikna þeir myndina en stroka hana næstum því út með tusku, en teikna síðan myndina aftur og aftur – til dæmis til að sýna hreyfingu.

Kol eru í raun ekki annað en brunnar og harðnaðar leyfar úr jurtaríkinu. Til dæmis þá er mjög auðvelt að búa til sín eigin kol til að teikna með. Þá þarftu reyndar að finna einhvern sem er að brenna varðeld en það sem þú gerir er að setja margar litlar trjágreinar þétt saman í niðursuðudós og setja við jaðar varðeldsins og ýta henni með áhaldi þangað sem er heitt í kolunum. Þannig lætur þú niðursuðudósina vera alveg þangað til á næsta dag eða þar til varðeldurinn er alveg orðinn kulnaður (kaldur). Þá getur þú varlega dregið þessar fínu kolastangir upp úr niðursuðudósinni og byrjað að teikna. Í þessu myndbandi getur þú séð hversu auðvelt það er að búa til kol.

Kol eru ein af fyrstu áhöldum mannsins til að teikna með og athugaðu að þau hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mörgum myndlistamönnum sem fyrirtaks verkfæri til skyssugerðar.

Þar sem kol eru afar viðkvæm og vilja brotna og molna auðveldlega þá er oft öðrum efnum blandað við þau til að gera þau sterkari, án þess endilega að þau glati sínum hæfileika. Á þessu myndbandi eru möguleikar kolsins sýndir.

Athugaðu að þegar þú ert búin að teikna þá er betra að spreyja sérstöku myndlista-lakki yfir myndina svo hún smyrjist ekki út (þú getur líka notað hárlakk).

Á vefsíðu stórrar vefverslunar sem sérhæfir sig í myndlistavörum og á vef wikipedia getur þú lesið þér allt til um kol.

Heimildir:
http://www.dickblick.com/categories/charcoal/compressedcharcoal/details/
http://en.wikipedia.org/wiki/Charcoal_(art)

http://www.britannica.com/EBchecked/topic/106344/charcoal-drawing

Kol

  • Categories →
  • Kol
 
 
Back to top