Til eru margar tegundir af penslum og hver tegund hefur sitt hlutverk, rétt eins og við notum stígvél til að vera í bleytu, strigaskó í spretthlaup og sandala til að spóka sig í.

Það er hægt að segja svipaða sögu um pensla og með hvaða málingu þeir eiga heima. Það er vel hægt að mála vatnslit með olíupensli en þegar þú hefur prófað að mála hana með vatnslitapensli þá kynnistu því hvað það er mikið betra.

Penslar eru samsettir úr skafti, hólki og hárum.  Löng sköft tilheyra frekar penslum fyrir akríl- og olíumálningu en styttri sköftin fyrir vatnslitapensla.  Penslar eru mjög mismunandi að stærð og lögun, allt frá því að vera mjóir með fíngerðum oddi yfir í að vera mjög feitir og stórir og einnig með breiðan flöt til að mála með. Mikilvægt er að hugsa vel um penslana sína og sé það gert geta þeir enst í fjölda ára.

Penslar fyrir vatnsliti
Penslar fyrir vatnsliti eru bestir úr Marðarhárum eða hárum af Squirrel.  Hárin mynda bústinn brúsk sem hafa þann eiginleika að geyma vökvann vel svo að rétt mátulega mikið kemur í einu. Ef þú vætir vatnslitapenslinn þá getur þú klipið enda hans saman í mjóan odd sem gerir fína línu.

Hér í þessu myndbandi ræðir einn spekingur um mismuna tegundir vatnslitapensla.

Penslar fyrir Akrílliti
Penslar sem eru búnir til fyrir akrílmálningu eru oftast nær úr gervi hárum.  Þeir geta verið margs konar í laginu, frá því að vera flatir og yfir í að vera bústnir, litlir og stórir. Penslar sem ætlaðir eru fyrir akrílliti getur þú notað einnig fyrir olíuliti og vatnsliti. Hins vegar eru olíu penslar ekkert sérstakir fyrir vatnsliti og vatnslitapenslar eru eiginlega ómögulegir fyrir olíuliti.

Penslar fyrir olíuliti
Í flestum tilfellum eru penslar fyrir olíuliti annað hvort flatir eða lítið rúnnaðir. Með notkun á penslum vill málning setjast í pensilinn og til að hreinsa hann er ágæt leið að pensla fram og til baka á auðan flöt til að ná sem mestu af málingunni í burtu. Síðan er að klemma hárin saman með annari hendi og strjúka úr endanum af penslinum með mjúkri tusku. Þar sem olíu málning leysist upp í terpentínu er næsta skref að leysa upp restina af málningunni með terpentínunni. Einnig er hægt að fá jurtasápu til að leysa burt olíumálninguna úr penslinum þar sem margir þola ekki terpentínuna.

Penslar fyrir blek
Hentugir penslar fyrir blek eru vatnslitapenslar en einhvernvegin hefur það tíðkast þannig að einna mestar tilraunir með verkfæri eru gerðar með bleki. Þannig eru listaverk máluð með stráum, stórum burstum, stundum skeggburstum, trjágreinum og fleiru og fleiru.

Mjög mikilvægt að hugsa vel um penslana !
Alla pensla má þvo með mildri sápu og volgu vatni og er það gert þannig að penslinum er nuddað mjúklega í hringi í lófanum þar til allur litur er uppleystur. Vatnið er þurrkað úr penslinum með því að pressa allt vatnið út (mjúklega) og slétta hárin (varlega). Mikilvægt er að leggja pensil niður flatann á borðið en ekki láta hann standa uppréttann. Það er vegna þess að það er ekki gott fyrri líminguna á hárunum (neðst í hylkinu) að standa í vatninu sem eðli málsins samkvæmt sæti þá í hylkinu.

Hér er stutt en greinagott myndband sem sýnir mismunandi pensla og hvernig eigi að hugsa vel um þá.

Hér er einnig áhugavert myndband um það hvernig penslar eru búnir til.

Á vef Winsor og Newton framleiðslufyrirtækisins má lesa áhugaverðan fróðleik um pensla.

Á vef Britannica Academic getur þú lesið fróðleik um pensla.

Heimildir:
http://academic.eb.com/EBchecked/topic/82319/brush
http://www.winsornewton.com/row/discover/our-products/brushes
http://academic.eb.com/EBchecked/topic/82319/brush

http://www.winsornewton.com/row/discover/tips-and-techniques/brush-glossary-row

Penslar

  • Categories →
  • penslar
 
 
Back to top