Teiknipenna köllum við penna sem eru til þess gerðir að teikna. Þeir eru líka kallaðir filtpennar eða tússpennar. Oftast eru þeir svartir en það er líka hægt að fá þá í öðrum litum. Teiknipennar eru skemmtileg verkfæri í myndlist því þú getur teiknað með þeim sterka og svipmikla mynd.

Þegar þú ert búin að teikna þá er ekki hægt að stroka út. Ef þú gerir eitthvað sem þú ætlaðir ekki að gera þá verður þú að breyta mistökunum í eitthvað annað og skemmtilegt.

Teiknipennar eru misstórir og misbreiðir og er oddur þeirra mismunandi, frá því að vera rúnnaður í að vera flatur. Flatur teiknipenni gefur flata breiða línu á meðan rúnnaður oddur gefur mjórri línu. Einnig eru til teiknipennar sem líkja eftir pensli í oddinum.

Teiknipennar eru heldur viðkvæmir og því má ekki teikna fast með þeim án þess að eiga það á hættu að oddur þeirra skemmist. Þetta á sérstaklega við með mjóustu oddana sem eru 0.1mm í þvermál. Algengir teiknipennar fyrir fínni teikningar eru frá 0.1mm og upp í 0.8mm en að sjálfsögðu fer það eftir smekk hvers og eins hversu breiðan eða mjóan teiknipenna hann vill teikna með.

Að innan eru teiknipennar með teikniblek í hylki og dreipir það eða vætir í litlum filtstaut sem er það sem teiknar.

Það eru mjög margar tegundir af teiknipennum framleiddir til að teikna með og eru vinsældir hans að aukast mjög og sem dæmi eru margar teiknimyndasögur teiknaðar að miklu leyti með teiknipennum.

Teiknipenna er hægt að flokka í tvo flokka, annars vegar vatnsleysanlega (e. water-based, non- toxic, non permanent) teiknipenna sem innihalda blek eða litarefni sem eru vatnsleysanleg. Það er hægt að þekkja þá af því að þeir eru nær lyktarlausir. Hægt er að þvo þá af með vatni og sápu ef teiknað er með þeim á óæskilegum stöðum en því miður eru þeir fremur endingarlitlir til lengri tíma litið.

Hins vegar eru það teiknipennar sem innihalda alkóhól, spritt eða önnur efni (e. synthetic resins, alcohol, ethyl, acid, permanent) og eru þeir litsterkir og með góðu litarefni og teikningar með þeim ættu að endast vel. Af þeim er sterk lykt og erfitt að þvo þá í burtu vilji svo óheppilega til að með þeim sé teiknað þar sem ekki á að teikna. Í sumum tilfellum innihalda þeir óæskileg efni og því verður að varast að leyfa litlum börnum að handfjatla þá þar sem það er í eðli þeirra að stinga öllu upp í sig.

Hver tegund frá hverjum framleiðanda hefur sinn eiginleika og hægt er að verða sér úti um mikið af upplýsingum á vefnum hafir þú tíma. Ég mæli með að þú prófir þig áfram og kynnist teiknipennum með því verða þér úti um eina eða tvær tegundir.

Á vef wikipedia.org getur þú fundið upplýsingar um teiknipenna.

Þessi vefsíða er stór vefverslun sem hefur gríðarlegt magn af myndlistaefnivið til sölu og þónokkuð mikið af fróðleik.

Heimildir:
https://en.wikipedia.org/wiki/Marker_pen
http://www.dickblick.com/categories/markers/

Teiknipennar

  • Categories →
  • Teiknipenni
 
 
Back to top